Um helgina fórum við Ómar með Sollu og Adam í árlega Veiðivatnaferð. Ekkert er eins afstressandi og að fara á einn af fallegustu stöðum Íslands með vinum og ættingjum. Það verður nú samt að viðurkennast að ég var ansi hreint stressuð að fara og sveiflaðist endalaust hvort ég ætti að hætta við eða bara drífa mig. Ástæðan jú, maukið…sem mér fannst vera óhemju flókin aðgerð. Frá því á þriðjudag hef ég maukað eitthvað grænmetisjukk sem leit út eins og hor og síðan maukaði ég kjötsúpu sem leit út eins og æla. Ég er ekkert að ýka! En svo ákvað ég að drífa mig og ég ákvað líka að hætta að mauka og byrja að tyggja
Amma mín, hún amma Kristín, sagði alltaf að maður á að tyggja 100 sinnum. Það er nú kannski einum of ennnn maður á samt að tyggja matinn sinn í mauk. Og það gerði ég, ég fékk mér ristabrauð með kæfu, sviðasultu og kjötsúpuafgang ómaukaðan. En svo var ég líka með barnamatskrukku sem var óhemju góð 🙂 síðan á heimleiðinni var okkur boðið í afmæli í Nefsholti og þar gat ég fengið mér ristað brauð með skinkusalati og boy oh boy hvað það var gott. Mig náttúrulega dauðlangaði í allar glæsilegu kökurnar en ég lét það vera. Þannig að vendipunkturinn er núna. Ég ætla að borða nánast allt og tyggja í drasl.
Mér líður alveg stórkostlega vel, full af orku og gengur bara alveg frábærlega. Ég er búin að missa 9 kg á tæpum 3 vikum svo það styttist í 10 kg. Vá hvað ég finn mikinn mun. Ég er ennþá að berjast við að fara ekki á vigtina á hverjum degi, lífið er jú stöðugar baráttur, en núna ætla ég að vera staðföst og fara ekki fyrr en á þriðjudaginn þegar 3 vikur frá aðgerð. Á morgun verður svo Veiðivatna silungurinn tyggður í drasl 🙂
Knús í hús elskurnar
P.s læt nokkrar góðar myndir fylgja með 🙂