Kæra dagbók

Já hef ákveðið að þessi færsla verði eins og dagbókarskrif þar sem ég opna mig algjörlega og deili öllum (eða nánast) mínum leyndu hugsunum. Í dag, 22.ágúst 2019, eru 2 ár síðan ég fór í aðgerðina stóru sem breytti lífinu frá A-Ö. Margt og mikið hefur gerst á þessu ferðalagi, sumt lítið annað stórt en allt sem skiptir máli.

Aðgerðardagur 22.ágúst 2017
Á Hviids vinstue 25.júlí 2019

Það eru bæði kostir og gallar við þessa aðgerð, og þótt kostirnir séu ótvírætt fleiri þá hef ég kannski stungið höfðinu svolítið í sandinn með gallana. Þessi dagur sem ég hef kviðið óskaplega er runninn upp og núna er það ég sem á að taka við keflinu varðandi þyngdina. Ég finn það núna að ég er farin að geta borðað meira og ég finn það líka núna að mig langar meira í sælgæti. Það er hrikalegt og ég neita að láta það eftir mér. Stundum koma dagar þar sem ég get ekki stoppað mig en svo koma dagar þar sem ég er ofsa dugleg. Það sem pirrar mig samt mest er þetta fjandans hreyfingarleysi og það ætla ég að bæta úr strax eftir helgi.

Í byrjun sumars fór ég í æðahnútaaðgerð því lappirnar á mér voru undirlagaðar af æðahnútum sem komu í ljós undir fitunni. Þessi aðgerð var með því verra sem ég hef lent í verður að viðurkennast, ég var heima í viku og kvaldist eiginlega frekar mikið. Eftir aðgerðina gat ég voðalega lítið hreyft mig og finn ennþá fyrir verkjum í hnéi og aðeins í kálfa. Læknirinn sagði að þetta væri eðlilegt og gæti tekið nokkra mánuði upp í ár að lagast alveg, þ.e. verkirnir. Mæ god ekki átti ég alveg von á því verður að viðurkennast en breytingin er samt sú að ég er ekki með eins mikinn náladofa í fótunum og ég var alltaf með og er ekki eins “kalin” eða kalt. Svo líta fæturnir miklu betur út núna sem er líka kostur 😉🤪

Eftir æðahnútaaðgerðina… ekki skemmtilegt
Flottar lappir 😉

Ég er búin að vera mánuð í sumarfríi, fór til Danmerkur í 10 daga og í sumarbústað í Grímsnesi í viku. Ég labbaði mikið en eins og gengur og gerist þá drakk ég líka svolítið mikið af bjór, hvítvíni og borðaði góðan mat, Ss leyfði mér meira en venjulega. Ég finn að þetta var kannski einum of mikill munaður og núna er að spýta í lófana og bara drífa sig í ræktina…koma sér bara af stað!!! Búa til góða matarrútínu, matseðla, elda allt frá grunni og pæla betur í hlutunum. Ég hef ekki verið nógu dugleg þar. Sá eða sú sem sagði að það væri voða kósý að vera með börnum í sumarfríi hefur ábyggilega verið hálf drukkinn því ég gæti ekki verið meira ósammála… maður þurfti stöðugt að vera finna eitthvað að gera og fékk eiginlega aldrei pásu. Reyndar var voðalega gaman að fara í Tívolí og komast loksins í ÖLL tækin, og líka í Lególandi. Það var líka voðalega gaman að geta labbað út um allt án þess að mæðast og geta verið í pilsi og bikiní án þess að skammast sín. Já ég fór í bikiní í fyrsta skipti síðan ég var unglingur. Ákvað að skammast mín ekki fyrir aukahúðina eða bingó handleggina og bara la gå. Fór í vatnsrennibrautargarð og fór í allar brautirnar án þess að strauja yfir lendingalaugina eins og Norbit. Litlu hlutirnir eru frábærir 😁😁

Maður hefði haldið að eftir að hafa misst öll þessi kíló þá ætti maður að vera upp á sitt allra allra best en ég hugsa að þetta hafi breytt mér, ég er aðeins að ströggla í lífinu. Upp á síðkastið hef ég verið uppstökk og pirruð, mikið eirðaleysi í mér og finnst allt erfitt. Ég er reyndar með erfitt heimili (einhverft barn sem reynir oft á taugarnar) Hef verið að ströggla með flogaveikina mína, lyfin ekki að virka sem skildi og í dag var verið að bæta inn nýjum lyfjum sem gera mig drulluslappa í svolítin tíma á meðan þau ná virkni. En ég er líka að venjast því að vera ný ég og það tekur á taugarnar. Ég næ ekki utan um allt, loka mig svolítið af og er ekki eins dugleg að tala við fólk og sinna fólki eins og ég var vön. Ætli megi ekki segja að ég sé með slatta þunglyndi þótt það sjáist ekki utaná mér.

Mig hefur langað að gefast upp á vinnunni minni frábæru og fara annað, mig hefur langað að skilja við manninn minn og mig hefur langað að flýja til útlanda… já ég segi þetta bara upphátt því það má! Út á við lookar allt vel en það er það líklega ekki. Hef reyndar ákveðið á þessu 2 ára afmæli að snúa vörn í sókn og verða besta útgáfan af sjálfri mér. Ég ætla ekki að tapa niður þessu frábæra verkfæri sem aðgerðin er heldur læra allt upp á nýtt og halda ferðalaginu áfram og verða hamingjusamari en nokkru sinni fyrr.

Talan á vigtinni er góð. Ég ætla ekki að léttast meira, ég ætla vonandi ekki að þyngjast mikið nema þá um vöðva. Ég ætla að ná upp góðu þoli, ná upp góðum vöðvamassa og ætla að lesa mér vel til um allt sem viðkemur þessari aðgerð eftir 2 ár+ Ég hugsa að þegar ég fer að hreyfa mig, rútínan fer að detta í gott horf þá mun andlega hliðin lagast að einhverju leyti. En ég þarf líka að tala við sálfræðing og það mun ég gera. Eitt skref í einu, ekki gott að ætla sér um of. Núna t.d. þarf ég að venjast nýjum flogaveikilyfjum og byrja í ræktinni. Síðan kemur eitthvað annað inn. Aðgerðin er það besta sem hefur gerst í mínu lífi, ég sé ekki eftir því í eitt sekúndubrot að hafa látið vaða en ég sé pínu eftir því að hafa ekki sinnt mér nógu vel og líka kannski að hafa ekki talað við fólk hvernig mér er búið að líða. En batnandi fólki og allt það….. Ég get ég skal ég ætla!

Ást og friður til ykkar elskurnar þar til næst ❤️❤️

Issa 2 ára mjóna

Tölurnar:

20.júní 2017: 139.9 kg

22.ágúst 2017: 132.7 kg

22.ágúst 2019: 69.1 kg

Daginn eftir Ísland í dag

Er bara ágætis dagur til að rembast við að blogga aftur. Já haldið þið barasta ekki að kjéllingin (ætli maður megi skrifa það án þess að móðga einhvern?) hafi verið í viðtali í tv, nánar tiltekið í Ísland í dag, beint eftir fréttir á Stöð 2. Þetta heppnaðist bara nokkuð vel verð ég að viðurkenna og ég hef fengið holskeflu af góðum kveðjum. Þau ykkar sem eruð ekki búin að sjá viðtalið góða here it is 😉 https://www.visir.is/sjonvarp

Það er náttúrulega ótrúlegur munur á manni verður að viðurkennast og ekkert skrítið að fólk þekki mann ekki 🙂 það var ótrúlega skrítið að sjá þessar gömlu myndir af mér. Ég var svona, ég er ekki lengur svona en er samt ennþá ég, sama manneskjan bara ekki í sömu umbúðum.

Ég og Elsa vinkona, þarna sést hvað ég var óhamingjusöm

Bráðum eru liðin 2 ár frá aðgerð og ég er búin að missa það sem ég vildi missa og líklega gott betur. Núna langar mig mest að fara styrkja mig og gera mig stælta. Það verður að viðurkennast að ég er ekki alveg nógu dugleg þar og húðin er frekar mikið slöpp. Ég fékk þetta fína prógram hjá Köru frænku minni og Agnesi vinkonu hennar en saman eru þær með Hraust sem eru með allskonar heimaprógröm fyrir allskonar fólk. Hvet ykkur að kíkja á það, er alveg þvílíkt að hjálpa mér. Hérna kemur linkur ef þið viljið kíkja á þessa snilld 🙂 https://hraustthjalfun.is/index.php/um-okkur/

Svo ég vaði nú úr einu í annað þá finnst mér núna ég þurfa að huga að andlegu hliðinni. Ég finn að þessi nýji líkami og nýja ég þarf líka að styrkja mig og gera mig andlega stælta. Því þetta tengist jú allt, samband mitt við mat, matarvenjur og bara sjálfa mig þarf að breytast. Ég held að allir hafi gott af því að leita sér sálfræðiaðstoðar og finna lausnir á öllu því sem dunið hefur á manni í lífinu. Ég man eftir að hafa lesið um það, þegar ég var að skoða allt í sambandi við aðgerðina, að það skipti ekki síður máli að fara í nokkra sálfræðitíma eins og að fara í blóðprufu. Þannig að næsta mál á dagskrá hjá mér er að finna mér góðan sála og úrhella úr mér öllu sem er að plaga mig.

Talandi um blóðprufur þá er ég búin að vera fara reglulega í þær og það hefur komið misjafnlega út. Kalk og Kalsíum voru of lág en ég náði að snúa því við.. vildu þau samt að ég kæmi oftar því það var eitthvað með að hvít blóðkorn væru of lág en ég hef ekki minnstu áhyggjur að það lagist ekki. Ég fer aftur á mánudaginn nk og þá verður örugglega allt í orden 🙂

Annars er bara allt í blóma, ég, Ómar og Unnar sonur minn erum að fara til Manchester á fótboltaleik (believe it or not ég á Manchester leik 🙈) eftir 9 daga og síðan í byrjun júní er ég að fara í yndislega kvennareisu með góðum vinkonum til Sitges á Spáni. Þar verður farið í Zumba, Spinnig og Yoga, flatmagað í sólinni og upplifað brjálaða stemmingu á geggjaðri Gaypride hátíð í bænum. Mæ lord hvað það verður dásamlegt. Ég hef fulla trú að ég nái að setja smá vöðva upp í slöppu bingóhúðina á handleggjunum áður en langt um líður og verð alveg meðidda í Sitges 😀

Við förum ekki að bregða út af venjunni og endum á því að setja inn nýjustu tölur 😀 ætla ekki alveg að lofa upp í “bingó” ermina á mér að vera dugleg að blogga en ég geri mitt besta. Þar til næst, hafið það sem allra allra best elskurnar

Knúz frá Izzu “semý frægu” byssu ❤️❤️

Tölurnar:

20.júní 2017= 139.9 kg

22.ágúst 2017= 132.7 kg

1.maí 2019 = 68.4 kg

Búin að missa 71.5 👏👏😄😄

Nú árið er liðið….

Og ég er ný manneskja. 22.ágúst var “afmælið mitt” …. fyrsta afmælið sem ég hef haldið jafn þung/létt og þegar ég var unglingur. Ég hljóma líklega eins og biluð plata þegar ég segi enn og aftur, þetta gengur alveg hreint lygilega vel. Ég er ennþá í ofþyngd samkvæmt BMI stuðli en vá hvað mér líður vel núna. Ég ætla samt að reyna að léttast meira og komast niður í 75-79 kg ef ég mögulega get (jájá auðvita get ég það 😉 )

Kyssa silung í Veiðivötnum um síðustu helgi

Árs afmælið hélt ég með því að ganga dagleið upp á hálendi. Þvílíkt sem þetta var stórfenglegt ferðalag. Ég skipulagði ferðina og bauð vinnufélögum að “joina”. Það var því vaskur hópur starfsfólks RSK ásamt afleggjurum, sem lagði í hann upp í Landmannahelli, föstudaginn 17.ágúst. Byrjuðum á smá göngu um svæðið á föstudeginum en aðal gangan var farin á laugardeginum. Þá gekk hópurinn frá Landmannahelli í Landmannalaugar samtals 18 km, upp og niður fjöll, yfir lækjarsprænur, ár, svarta sanda og mosabreiður. Veðrið var ólýsanlega gott og útsýnið algjörlega stórfenglegt . Það er skemmst frá því að segja að mér gekk ótrúlega vel, enda heilli manneskju léttari 🙂 ég blés varla úr nös og hélt í við alla sem ég hélt að ég myndi aldrei geta. Ég hef gengið þessa dagleið einu sinni áður, þá 30kg þyngri og vá hvað þetta er miklu miklu betra. Ég verð bara að segja að það eru algjör forréttindi geta loksins hreyft sig skammlaust og fengið að upplifa fallegustu staði Íslands. Ég hvet alla til að kynna sér þessa gönguleið sem heitir Hellismannaleið, þið sjáið ekki eftir því.

Vondugiljaaurar
Þarna 30 kg þyngri upp á Stórhöfða
Heilli manneskju léttari upp á Stórhöfða 18.ágúst

Á sunnudeginu var svo aftur lagt í hann, ég hélt nú að ég gæti ekki með nokkru móti hreyft mig eftir langa laugardaginn, ég var með risa blöðru á stóru tá og almennt frekar stirð. En þrjóska ég ákvað samt að fara með og VÁ hvað það var þess virði. Við gengum að upptökum Rauðufossa og ég get ekki lýst því með nógu sterkum lýsingarorðum hvað þetta er magnaður staður. Og enn og aftur kom ég sjálfri mér á óvart og gekk upp og niður fjall án þess að mögla og já með risa blöðru á tánni. Meiri harðjaxlinn sem maður er 😉

Rauðu fossar

Upptökin… algjörlega ólýsanlegt

Annars hef ég ekki bloggað neitt síðan í mars og já ég skammast mín slatta fyrir það. Margir sem hafa sett sig í samband við mig og núna ætla ég að reyna að vera duglegri að blogga (haha hef líka sagt þetta áður). Ég finn það núna að ég hef meiri lyst, langar meira í nammi og þarf að passa mig meira. Ég set mikið traust á fitbitið mitt og reyni að taka 8000 skref á dag. Það gengur upp og ofan en mig langar svo mikið að hreyfa mig meira, virðist bara aldrei finna réttu fjölina. Jú það er nokkuð gott að labba dagleið upp á hálendi en þetta þarf að vera miklu reglulegra. Lífið er bara svo flókið einhvernveginn, mikið að gera, stórt erfitt heimili og margt sem þarf að skipuleggja. Eitthvað þarf alltaf að sitja á hakanum og mínu tilfelli þá er það reglulega hreyfingin. Bömmer ég veit en svo má maður ekki refsa sér um of. Hinsvegar ætla ég ekki að detta í nammi gírinn. Snakkið mitt á kvöldin núna er harðfiskur, ber og ávextir og ég ætla að halda mig við það. Ég borða ennþá lítið í einu en miklu oftar. Finn samt stundum fyrir því núna að mig langar að stoppa á heimleið eftir vinnu og fá mér eitthvað fljótlegt. Ég get sem betur fer ennþá stoppað mig í því bulli, dríf mig heim og fæ mér hrökkbrauð, tvíbökur eða ávexti.

Aðalsteinn læknir hringdi í mig um daginn með niðurstöður úr blóðprufum. Eins og venjulega þá er B12 lágt og D vítamin líka. Ætla að drífa mig í B12 sprautu og vera dugleg áfram í D-inu. Þetta með B12 skortinn getur skýrt afhverju ég er verri af flogaveikinni allt í einu 😦 fæ miklu oftar störuflogin og í byrjun ágúst fékk ég því miður stórt flogakast, sem hefur ekki gerst í langan langan tíma. Aðalsteinn sagði að B12 skortur hefur áhrif á taugakerfið þannig að þetta gæti verið skýring. Því held ég að sprautan gæti verið góður kostur fyrir mig til að fá smá búst. Annars er ég alveg dugleg í vítamín málum. Þarf bara að setja smá kraft í þetta tvennt.

Jæja þá er komið gott í bili..set inn ársafmælis tölur hérna að neðan og verð svo duglegri að blogga í framhaldinu. Að lokum vil ég segja að þessi ákvörðun sem ég tók er sú besta hingað til. Lífið er núna og ég er ný manneskja í nýjum líkama. Ég elska þetta 😁😁😁 takk fyrir að nenna að lesa

Knús og kossar❤️❤️❤️

Issa endurfædda

Tölurnar:

20.júní 2017= 139.9 kg

22.ágúst 2017= 132,7 kg

22.ágúst 2018= 83,2 kg

56.7 kg farin sem er heil manneskja 💪💪💪👏👏👏😁😁

Stoppin

Já ég er í stoppi og það er að gera mig brjálaða. Svona stopp koma reglulega og oft og það er beisiklý ekkert við því að gera. Nema jú, halda áfram að borða hollt og hreyfa sig. Talandi um að hreyfa sig þá er ég bara alls alls ekki nógu dugleg í því máli. Ég er búin að downloda öllum öppum undir sólinni sem eiga að hjálpa manni með hreyfingu og að fylgjast með þróuninni en það hefur ekkert að segja. Ég þarf bara að DRÍFA MIG Í RÆKTINA!!

Ég var að telja öppin mín og ég er með 8 hreyfingar, heilsuræktaröpp í símanum! Já þið lásuð rétt 8 öpp. Nýjasta appið og jafnframt mögulega það heimskulegasta er Nokia health mate, sem fylgir nýju vigtinni minni. Ég “neyddist” til að kaupa mér nýja vigt því sú gamla gaf upp öndina. Ég keypti ekki bara einhverja plain vigt, ónei ég keypti mér snjallvog. Hún er með wifi, segir manni veðrið og gefur manni upp hinn margumtalaða bmi stuðull. Ég er náttúrulega ennþá óeðlilega þung en vonandi fer ég niður í goal þyngdina (sem er 66 kg samkvæmt health mate appinu en mér finnst það alltof lítið). Stefnan hjá mér er sett í 80 kg til að byrja með og sjá hvernig mér líður þá.

En aftur að stoppinu…. gamla vigtin mín sýndi 96,9 í lok febrúar. Nýja vigtin sýnir 96,2 sem er bara 700 gr á nokkrum vikum. Þetta er frekar mikið að pirra mig og mig langar mjög að koma mér almennilega af stað aftur. Ég er því miður búin að liggja í enn einni flensunni og er bara öll ómöguleg. Er ennþá með svolítin hósta og ofan í mér en þetta er samt allt að koma. Það verður nú að viðurkennast að ónæmiskerfið í mér hefur beðið einhverja hnekki eftir aðgerð því ég fæ allar pestir known to man núna (okey smá ýkjur). Ég tek alltaf lýsið mitt og Dið mitt en það virðist ekkert gera fyrir mig. Ég bið til guðs að veikindatímanum mínum sé lokið því ég nenni ekki að standa í þessu veikindabrölti. Á morgun þegar Adam fer í sund ætlum við Ómar að fara á hlaupabrettið saman og síðar í vikunni ætla ég að draga hann með mér í smá lyftingasession.

Annars verð ég að passa mig að fara ekki að detta í einhverja óhollustu og þarf að halda mínu striki. Finn það núna að ég get borðað miklu meira en ég var vön og það hræðir mig. Ég verð að finna einhvern balance og er ákveðin í því að panta mér hjá næringarfræðing og sála því ég þarf að koma hausnum í lag í samfloti með þessu líkamlega. Það er mikill hætta á að ef maður endurstillir ekki á sér viskustykkið (heilann) þá detti maður í sama farið og þegar maður var of þungur. Maður þarf að rækta líkama og sál til að enda sem sigurvegari.

Að lokum langar mig að hvetja alla sem þetta lesa að adda haustfjord.is á snapp. Hún er svo dásamleg mannvera með hausinn á réttum stað öll skreytt í glimmer 🙂 Hún nær svo vel til mín að ég fer í bedda uppfull af ákveðni og þvílíkt peppuð að komast á rétt ról aftur. Það þýðir ekkert að klúðra þessu frábæra verkfæri sem aðgerðin gaf mér og halda áfram áfram áfram að komast að lokatakmarkinu (sem er mismunandi hjá mér eftir því hvaða app ég skoða 😂) ÁFRAM ÉG! Takk fyrir að lesa elskurnar ❤️

Lots of love

Issa appóða

Tölurnar:

20.júní 2017: 139,9

22.ágúst 2017: 132,7

19. mars 2018: 96,2

Fyrsta skipti í gallabuxur í 30 ár

Nýtt ár…nýjir tímar

Jeminn, hef ekki skrifað síðan fyrir jól 2017 og skammast mín pínu. Ætlaði að verða landsfrægur bloggari en svo blogga ég bara ekki baun 😂 óvell, koma tímar koma ráð. En já það eru svo sannarlega nýjir tímar hjá mér, árið 2018 er MITT ÁR! Loksins loksins loksins sýnir vigtin tveggja stafa tölu! HÚRRA, ekki nóg með það heldur er ég næstum búin að ná ákveðnum einstakling sem ég nefni ekki á nafn 😉 vá hvað þetta er gaman. Eins og venjulega gengur þetta bara mjög vel, ég borða nánast allt, fæ stundum í magann en yfirleitt ekki. Ég finn það að ef ég borða mjög hratt, sem ég geri, þá fæ ég illt í magann. Ég þarf svo innilega að vanda mig að njóta matarins og vera lengi.

Ég er loksins farin að hreyfa mig, búin að kaupa mér árskort í world class, er í fjarprógrammi hjá Sibbu Arndal og búin að fjárfesta í fitbit skrefamæli sem gefur mér stuð þegar ég þarf að standa upp og hreyfa mig. Allt þetta geri ég svo ég komist í form áður en við förum dagleið (Hellismannaleið) í sumar. Ég þarf líka að reyna að stækka vöðvana upp í umframhúðina sem er tekin að lafa á hinum ýmsustu stöðum :/

Ég tók mig líka til og stofnaði lið Ríkisskattstjóra í Lífshlaupinu, eitthvað sem aldrei hefur verið gert og það er skemmst frá því að segja að okkur gekk vel miðað við fyrsta skipti og lentum í 5.sæti. Næsta ár verður ennþá betur undirbúið og þá munum við komast á verðlaunapall. Fólk er ennþá mjög mikið að hrósa mér og segja að ég sé dugleg. Stundum finnst mér ég ekki dugleg að því leitinu að þetta gengur eitthvað svo átaklaust og án þess að ég geri nokkuð. En jú líklega er ég dugleg að einhverju leyti, allavega dugleg að vera byrjuð í ræktinni.

Það eitt að fara alein og óstudd í ræktina er hrikalegur sigur. Fyrsta daginn þegar ég var að fara þá var ég á fullu að reyna að finna einhverja afsökun til að fara ekki en Telma mín rak mig áfram og kom með mér. Vá hvað það var gaman 🙂 fyrsta skipti á ævinni sem ég fer með dóttlunni minni í ræktina (og já send nokkur snöpp af því tilefni). Næst ætla ég að fara með Sollu sys, það verður líka að mig minnir í fyrsta skipti sem ég fer með henni. Nýjir tímar svo sannarlega.

Ég er orðin þvílíkt skipulögð með matinn. Reyni alltaf að borða próteingjafa fyrst, borða mjög reglulega og drekk mikinn vökva yfir daginn. Er meira að segja búin að merkja máltíðirnar inn í dagbók og merki við þegar ég er búin að borða. Verð að gera þetta svona svo ekki líði of langt á milli máltíða. Ef ég gleymi einni máltíð þá borða ég of hratt og fæ í magann. Manni líður svo vel að vera skipulagður.

Það er örugglega margt sem ég er að gleyma en læt þetta duga í bili. Heilbrigð sál í hraustum líkama á svo sannarlega við núna, mér líður alveg hreint stórkostlega vel og lífið er bara frábært. Ekki langt í lokatakmarkið sem er kjörþyngd og ekki heldur langt í næsta markmið sem er 50 kg múrinn. Úfff hvað þetta er eitthvað mikið. Læt nokkrar stemmingsmyndir fylgja með og já tölurnar. Takk fyrir að nenna að lesa elskurnar

Xoxo

Issa ýlustrá

Tölurnar:

20.júní 2017: 139,9 kg

22.ágúst 2017: 132,7 kg

25.febrúar 2018: 96,9 kg

Spurning dagsins er…..

Áðan spurði ég Ómar hvort núll væri tala. Ég var ekki alveg nógu sátt við svarið hjá honum svo ég spyr ykkur, Er 0 tala? Ég meina hún er ekki neitt, cero, nonumero og ég er viss um að heimspekingar hafa einhverntímann sagt að núll væri ekkert, ekki tala. Já já ég veit, núll mikilvægt og allar tölur byrja á núlli. En EF núll væri ekki tala þá gæti ég sagt núna að ég væri komin í tveggja stafa tölu en ég er ennþá víst í þriggja stafa tölu. Það hughreystir mig gífulega að vita að árið 2018 kemst ég RAUNVERULEGA í tveggja stafa tölu 😁😁 mikill áfangi verður það.

Í dag fór ég og verslaði mér föt, falleg vönduð föt í minni stærð en ég er vön 😁 Ég var svosem búin að fara í nokkrar búðir og máta fullt en hef einhvern veginn alltaf haldið að mér höndunum og ekki keypt mér neitt. Ég hef eiginlega ekki fundið mig í búðum og alltaf verið með feituna og ljótuna. En í dag fann ég mig all svakalega og verslaði mér jólakjólinn minn. Ég fór til Elsu klæðskera ( er á Facebook ) og fann mér tvo dásamlega kjóla. Við Ómar erum að fara gera margt og mikið um helgina svo það var ekki seinna vænna en að dressa sig upp.

Annars ganga hlutirnir gífurlega vel, það hefur alveg komið fyrir að ég fæ í magann. Fæ oftast í magann eftir að ég borða en það er fljótt að jafna sig. Reyndar á mánudaginn þá var ég næstum búin að kasta upp yfir borðið í vinnunni en ég náði einhvernveginn að anda mig í gegnum ógleðina. Það hefur líklega verið afþví ég var lítið búin að borða þá um morguninn og síðan gleypt í mig hádegismatinn. Ég þarf voðalega mikið að vanda mig, passa skammtana og ekki að borða hratt. Það atriði á ég mjög erfitt með því ég borða frekar hratt og hef alltaf gert, Þarf að vanda mig að hægja á.

Það sést alveg gífurlegur munur á mér og allir að hrósa mér, eina sem ég segi bíðið þið bara ég verð ennþá flottari innan skamms. Á laugardaginn verð ég líka óhemju flott því þá frumsýni ég nýju fötin keisarans. Gaman gaman. Bið að heilsa elskurnar. Blasta mynd af okkur skötuhjúunum á opinberunarbókinni á laugardaginn, wait for it 😉

LOL ( lots of love)

Íris glamúrgella

Tölurnar:

20.júni 2017 139,9

22.ágúst 2017 132,7

06.desember 2017 109,8 ( ef 0 er ekki tala þá er ég komin í tveggja stafa tölu) 😜

Mikið er lífið dásamlegt

Þrátt fyrir að það gangi á ýmsu með börn og bú…Solla í non stop slím gerð og Adam að refsa okkur fyrir að fara lengi frá honum þá er lífið alveg hreint dásamlegt 😀. Mér líður alveg stórvel, kílóin fjúka af og þrekið bara allt annað. Við hjónin fórum eins og kunnugt er til Madeira 4.nóv sl og vorum í alveg 9 daga. Þetta var eitt besta frí sem ég hef átt, ekki neinar áhyggjur og þurftum bara að hugsa um sjálf okkur. Ekkert stöðugt verið að ákveða hvað átti að gera næst heldur bara að njódddda og lifffa í núinu ❤️

Madeira er frekar brött eyja, miklar brekkur og klettar og alltaf verið að ganga uppí mót. Það verður að viðurkennast að þar fann ég mikinn mun á orku og getu, hélt í við fólk og gat gengið upp og talað án nokkurs vesens. Mikið sem það var gaman og allt hrósið sem ég fékk var heldur ekki að skemma fyrir 😉

Í sambandi við matinn þá gat ég ekki borðað mikið frekar en fyrri daginn en þurfti að borða oft. Ómar þurfti stöðugt að draga mig að landi og svo vorum við líka farin að panta bara einn rétt til að deila. Þegar ég pantaði eitthvað fyrir sjálfa mig þá var það alltaf forréttur sem ég yfirleitt gat ekki klárað en þá kom Ómar sterkur inn. Ég lét kökur og svoleiðis eiginlega alveg í friði en fékk mér reyndar besta mojito í heimi á hverju kvöldi.

Það sem ég var búin að kvíða hvað mest fyrir var drykkjan en það gekk bara alveg mjög vel og ég fór aldrei yfir strikið og náði að halda mér á línunni þegar ég fékk mér í glas. Ég finn reyndar mjög mjög fljótt á mér og þá hætti ég bara, einnig er ég líka lengi með sama glasið og drekk lítið þannig að þetta er mjög stór plús fyrir budduna.

Ég hreyfði mig eðlilega mjög mikið þarna úti og sá mun á mér liggur við á hverjum degi. Ég er með stillt hreyfingamarkmið og skrefamarkmið í símanum og ég náði því á hverjum degi og gott betur en það. Ég fór ekkert á vigt fyrr en ég kom heim en hugsaði með mér að talan passaði ekki því ég var frekar bjúguð og bólgin eftir flugið. Ákvað því að halda í mér í nokkra daga og fór svo á vigtina í dag. Talan var frábær og ég ræð mér ekki fyrir kæti. Set tölur neðst í færsluna ásamt nokkrum myndum úr ferðinni. Takk fyrir hvatninguna elskurnar mínar, þið eruð frábær ❤️

Tölurnar:

20.júní 2017 139,9

22.ágúst 2017 132,7

18.nóv 2017 111,5

Þegar ég fékk í magann.

Það hefur ekki gerst oft á þessari vegferð minni að ég hef fengið í magann en um daginn gerðist það. Ég sá alveg hreint dásamlega uppskrift af kjúkling í beikon sósu og hugsaði með mér að þetta yrði étið upp til agna. Ég ss skar kjúklingabringur í bita og setti í eldfast fat, steikti beikon og bætti grænmeti, sýrðum rjóma og kryddum útí. Þessari sósu dembdi ég svo yfir kjúllan, setti ost yfir og inní ofn. Á meðan ég beið eftir að þetta eldaðist þá setti ég spurningu inn á hópinn góða á Facebook sem er fullur af snillingum sem hafa farið í offituaðgerð. Þar spurði ég hvort mér væri óhætt að fá mér beikon… ég náði ekki að bíða eftir svari því maturinn var til. Ef ég hefði beðið í smá stund og lesið svörin þá hefði ég líklega ekki fengið mestu magapínu sem sögur fara af 😩 ég fékk mér smá kjúkling, sneiddi alveg framhjá beikon (að ég hélt) en tók ekki eftir föstum beikonbita í ostinum og því fór sem fór. Ég var varla búin að kyngja þegar ég þurfti að rjúka frá borðinu og kastaði alveg þvílíkt upp. Þetta var hriki, ég veit ekkert verra en að gubba og það sem gerði þetta ennþá verra var að það kom varla neitt nema gall 😖

Þegar ósköpin voru liðin hjá þá fór ég að lesa það sem snillingarnir svöruðu og það var einróma álit að beikon er verkfæri djöfulsins fyrir fólk sem er búið í svona aðgerð. Því miður því mér finnst fátt betra en beikon og það lá við að ég færi að grenja þegar ég áttaði mig á því að líklega væri þetta out for good. Sem leiðir mig að næstu pælingu, ef beikon er ekki gott fyrir mann hvað þá með hamborgarhrygg og hangikjöt á jólunum? Bæði mjög reykt, salt og feitt alveg eins og beikon. Ég ímynda mér að það sé heldur ekki gott fyrir mann. Þannig að mín breytta sýn á jólamatinn er sú að ég elda þennan hefðbundna mat fyrir fjölluna en elda eitthvað annað gourmet fyrir mig. Kannski bara kalkúnabringur nú eða hnetusteik. Verður bara gaman að leggjast yfir healthy jólauppskriftir.

Annars er bara allt gott…ég er reyndar ennþá í stoppi eða því sem næst…ég VERÐ að venja mig af því að fara daglega á vigtina. Frekar að fara vikulega því hitt er bara vont fyrir sálina. Ég náði loksins að kaupa mér málband og mældi mig alla. Setti tölurnar inn í app og ætla svo að mæla mig á 2 vikna fresti og sjá línuritið stefna niður niður niður 😁 ég veit það samt að ég er búin að missa tvær fatastærðir eða næstum því svo það er mjög jákvætt. Ég hefði viljað vera búin að missa aðeins meiri rass áður en við færum til Madeira but óvell ég er samt fabulous 😀😀

Madeira er eftir 9 daga og það verður æði get ég sagt ykkur. Verður ósköp gott að komast með elskunni sinni í smá frí án barna og buru. Bara kærustuparast í heila 9 daga og njóta þess að vera í sól og sumaryl í góðum félagsskap. Ég fékk skilaboð frá einni góðri konu að hún ætti sundföt fyrir mig og ég sótti þau til hennar áðan. Ég er ekki búin að máta en ætla að gera það á eftir. Mjög jákvætt að þurfa ekki að kaupa sér sundföt fyrir ferðina góðu.

Þar til næst, hafið það gott elsku fólk og munið… stay off the bacon 😜

Knúz í húz

Tölurnar:

20.júní 2017 139,9

22.ágúst 2017 132,7

25.10 2017 114,8

Læknisheimsókn

Jæja loksins kom að því að ég færi í almennilega læknisskoðun eftir aðgerð. Fór að hitta Aðalstein lækni í Klíníkin og það er skemmst frá því að segja að það er nánast allt í blóma. Tölurnar voru þannig að kílóin sem eru farin eru 23, centimetrar um mitti sem eru farin eru rúmlega 30 og BMI hefur lækkað um 7,1 😀 það verður að viðurkennast að ég gæti ekki verið ánægðari. Eina sem ég þarf að laga er að ég var afskaplega lág í D vítamíni þannig að ég þarf að taka allverulega á því þar. Taka 800 mg 2x á dag. Svo þarf ég að vanda mig verulega með próteinið og auka það.

Ég spjallaði aðeins við hann um allt og ekkert og sagði honum að hlutirnir ganga alveg stórvel. Hann sagði að hann væri alltaf meira og meira sannfærðari að mini bypass aðgerðin væri algjörlega málið því aukaverkanirnar væru miklu minni heldur en með stóru bypass aðgerðinni. Ég viðurkenni það alveg að ég átti von á því að þetta yrði meira mál en það er ekkert þannig að angra mig svo ég er á grænni grein.

Næsta mál á dagskrá er Madeira ferðin okkar Ómars sem er eftir litlar 4 vikur. Mikið verður nú ljúft að komast í sólina og sælunna og já stóri kosturinn er að þá fæ ég nóg af D vítamíni. Það verður örugglega smá flókið að finna rétta taktinn þegar kemur að matarmálum. Ég þarf að halda strangri rútínu og borða 6x yfir daginn. Mest kvíði ég skammtastærðum en við Ómar getum örugglega deilt mat 🙂 Ég “neyðist” til að fara í smá búðarrölt til að finna mér eitthvað Madeira vænt að vera í, bikíní, kímónó og allskonar svoleiðis gott stuff. Jeminn hvað þetta er gaman. Og já svo verður líka dásemd að passa í flugsæti án þess að vera kramin. Dásamleg tilhugsun.

Því miður eru ekki allir jafn heppnir og ég, sumum hefur gengið annsi illa eftir aðgerð og lent í allskonar vandkvæðum og veseni. Hugsa samt að flestum gangi allt í haginn en ég hvet alla þá sem eru að hugsa um þetta að kynna sér málið mjög mjög vel, hlusta á lækninn og hugboðið. Ég á kannski erfitt með að ráðleggja svona því það verður að viðurkennast að það gengur alveg óhemju vel hjá mér….lesið lesið lesið ALLT um svona aðgerðir, talið við lækninn og takið vel upplýsta ákvörðun. Mín ákvörðun var góð og ég sé aldrei eftir þessu. Aðrir hafa kannski aðra skoðun. Ef þið viljið spjalla um þetta endilega hafið samband og ég skal með glöðu svara öllu sem ég get.

Líði ykkur sem allra best elsku fólk þarna úti

Kv. Issa hressa

Loksins bloggið

Hef ekki verið neitt svakalega öflug hérna verður að viðurkennast. Meðan allt gengur eins og í sögu þá kannski þarf maður ekki mikið að segja. Og já allt gengur eins og í sögu 🙂 ég borða allt og hef ekki fengið neitt í magann þrátt fyrir það. Vá hvað það er mikill léttir. Ég forðast feitan mat eins og heitan eldinn og líka sykur, nema hef aðeins stolist að fá mér Malt og smá sprite. Eina sem er að plaga mig núna er bévítans flensa sem ég er búin að vera að berjast við síðan á fimmtudag í síðustu viku. Byrjaði á að fá mikla hálsbólgu þá og var heima. Fór í vinnuna á föstudaginn en strax heim því mér leið svo illa…asnaðist til að vera ekki í bæli um helgina og ligg núna með kvef,hálsbólgu og hita. Ömurlegt ástand.

Það sem ég þarf að bæta er inntaka á vítamínum. Það er ekki alveg nógu gott hjá mér og ég þarf að bæta það. Mínir elskulegu samstarfsfélagar höfðu áhyggjur að ég væri að detta í nokkurskonar þunglyndi, fannst ég ekki eins kát og ég átti að mér að vera en ég reyndi að fullvissa þá að mér liði bara vel fyrir utan flensuskrattann. Það er ein af ” aukaverkununum” eftir svona aðgerð að fólk verður dapurt og þunglynt. Ég geri mér grein fyrir því og held að með því að taka vítamín og hreyfa sig þá verði lífið allt allt annað. Ég hef fengið þunglyndi í gegnum tíðina og mér líður ekki svoleiðis núna. Er bara pirruð á flensunni en það er bara það. Finnst voðalega vænt um að fólk sé umhugað um mig og met það mikils. Þetta eru bestu vinnufélagar í heimi 🙂

Ég er í facebook hóp á netinu fyrir fólk sem hefur farið í svona aðgerð og þar var einmitt verið að tala um vítamín málin. Þar var ein sem pantar sín vítamín frá Svíþjóð en þau eru sérsniðin fyrir fólk sem hefur farið í offituaðgerð. Ég pantaði mér prufupakka og er mjög spennt að prófa. Síðan heitir baricol bariatrics, er á sænsku en það er ekkert mál að skilja 🙂 set slóðina hérna með https://baricolbariatrics.se/

Núna eru bara rúmar 4 vikur í ferðina okkar Ómars til Madeira. Ótrúlegt en satt þá hlakkar mig mjög mikið til að passa almennilega í flugvélasætið 🙂 það verður aldeilis munur. Ég “neyðist” til að kaupa mér ný sundföt því mín eru orðin alltof stór á mig 😀 svo þarf ég líka að fara versla mér eitthvað smá því það er beisiklý allt orðið of stórt á mig og ég á engin föt. Vá hvað þetta er gaman. Þarf örugglega reglulega að kaupa mér ný og ný númer sem er mjög ánægjulegur fylgikvilli þessarar

aðgerðar. Á mánudaginn næsta fer ég að hitta Aðalstein lækni í eftirlit það verður mjög spennandi. Fer líka í Heilsuborg aftur á mánudaginn og þá fara hlutirnir að gerast. Ætla líka að fara hitta sálfræðing því maður verður að taka þetta alla leið, rækta hug og heilsu því það er það sem skiptir mestu máli í lífinu. Ætla ekki að detta í þunglyndi heldur fyrirbyggja það, verður ekkert mál með allt þetta góða fólk í kringum mig. Læt ykkur heyra hvað doksi segir á mán….knús til ykkar elskurnar

Issa soon to be beinagrind

Nýjustu tölur:

20.júní 2017 139,9

22.ágúst 2017 132,7

4.okt 2017 117,9