Litlu hlutirnir

Orðið smá síðan ég skrifaði hérna síðast…hugsa að ég verði meira virk þegar styttist í þetta og líka eftir. Ég hugsa mikið um hvað breytist þegar ég verð orðin léttari. Hugsa að það sem verði mesti léttirinn eru allir litlu hlutirnir sem samt vega svo mikið. Eins og bara það að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að passa í flugsæti, geta keypt mér 66N úlpu (ekki að ég hafi efni á því en væri samt gaman að passa í hana 🙂 geta rólað í rólu og hangið í hengirúmi án þess að hafa áhyggjur að því að tré falli saman, nei smá grín 🙂 ég er í hóp á facebook með fólki sem hefur farið eða er að fara í offituaðgerð. Þar voru tvær sem hittust í Leifsstöð og fannst svo dásamlegt að geta setið með krosslagðar fætur án nokkura vandræða. Það hef ég ekki gert í fjölda mörg ár og það eina smáræði segir svo margt. Þegar fólk, sem hefur farið í svona aðgerð, er spurt hvort það sjái eftir einhverju þá er lang algengasta svarið: AÐ HAFA EKKI FARIÐ FYRR. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er fyrst núna tilbúin. Ég er búin að lesa og lesa og lesa um þetta og þykist vita hvað ég er að fara út í. Líklega mun ég finna fyrir söknuði vegna matar sem ég get ekki borðað en hitt sem á móti kemur er meira virði. Að geta labbað með manninum mínum dagleið upp á hálendi (í nýju 66N úlpunni minni) hjólað og jafnvel hlaupið með honum stífluhringinn verður alveg þess virði að geta ekki fengið mér KFC 😀 hlakka til…svo mikið til

Knúz til ykkar

Issa byssa

Byrjunin

Svo við höldum áfram þar sem frá var horfið þá fór ég að hitta Aðalstein lækni, hjá Klíníkin Ármúla, 20. júní sl. Upphaflega ætlaði ég að fara í ermina en hann sagði að sökum bakflæðis þá væri það ekki góður kostur fyrir mig. Ég sagði honum að ég væri pínu hrædd við hjáveitu því ég hafði heyrt misjafnar sögur af því. Þá kynnti hann mig fyrir svokallaðri mini hjáveitu sem væri búin að ryðja sér til rúms út í hinum stóra heimi. Þetta væri ekki þekkt aðferð á Íslandi en hann væri búinn að gera nokkrar hér og gekk mjög vel. Tíðni aukaverkanna á að vera lægri með þessari aðferð sem er náttúrulega mjög jákvætt og þar sem hann Aðalsteinn er mjög sannfærandi maður þá ákvað ég að stökkva í djúpu laugina og panta tíma í aðgerð. Áður en ég fer í aðgerðina þarf ég að léttast um að minnsta kosti 7 kg til að minnka ummál lifrarinnar sem er betra á aðgerðadegi. Hann lét mig fá nokkra kúra til að léttast hratt, þar á meðal hrökkbrauðskúrinn sem ég ákvað að prófa. Í stuttu máli þá borða ég 6 hrökkbrauð á dag og mikið grænmeti. Ég hef val um nokkrar gerðir áleggs og má svo borða kjúkling, feitan fisk eða magurt kjöt á kvöldin en í mjög litlu magni. Ég má bara innbyrða 800-900 hitaeiningar á dag sem verður að teljast mjög lítið. En þetta er að ganga alveg svakalega vel og í dag er ég búin að missa 4,3 kg á aðeins 2 vikum. Ætti að ná því að léttast um 3 kg í viðbót fyrir 22.ágúst ef ég held mínu striki. Verður nú samt að viðurkennast að það er ansi erfitt að vera í þessum kúr núna þegar sumarfríið er að detta í hús en ég get,ætla, skal ná þessu 🙂 Áfram ég!! Hafið það gott elskurnar, þar til næst

Issabyssa 🙂

p.s set með skýringarmyndir af minihjáveitu og stórri hjáveitu (RNY)

 

Fyrsta bloggið

Hér lítur dagsins ljós fyrsta bloggið mitt í þeirri vegferð sem bíður mín næstu misserin. Ég, Íris Valgeirsdóttir (sorrý hvað ég er háflegin) er að fara í svokallaða mini hjáveitu 22.ágúst nk. Fyrir ykkur sem vita ekki hvað það er þá er það offituaðgerð sem mun án nokkurs vafa bæta lífskjör mín svo um munar. Svo ég segi ykkur aðeins mína sögu þá er ég búin að berjast við ofþyngd frá því ég varð ólétt af mínu fyrsta barni aðeins 17 ára gömul. Eins og gengur og gerist þá hef ég rokkað upp og niður í þyngd allar götur síðan. Ég er búin að reyna allt mögulegt og ómögulegt til að ná árangri en ekkert hefur raunverulega gengið. Ég er búin að sjá og heyra af mörgum sem hafa farið í stóru hjáveituaðgerðina, magaband og magaermi, flestum hefur gengið vel en einhverjum gengið illa. Og að sjálfsögðu heyrði ég  hærra í þeim sem gekk illa og ákvað að þetta væri ekkert fyrir mig. Nema hvað, fyrir nokkrum mánuðum síðan fór ég að finna fyrir hinum ýmsu kvillum. Ég er komin með ofsalega mikið bakflæði, er illt í öllum liðum, endalaust þreytt og ómöguleg. Og svo gerðist það einn daginn að ég bókstaflega hélt að ég væri að fá hjartaáfall. Ég fékk ofsalega verk í magann, bringuna, upp í kjálka og aftan í hnakka. Ég kastaði upp, svitnaði og varð bara óhemju veik. Ég var ný búin að lesa um hjartaáföll kvenna og ákvað að drífa mig upp á bráðamóttöku. Sem betur fer var ég ekki að fá hjartaáfall heldur var þetta “bara” ofsalegar magabólgur. Þetta atvik samt sló mig það mikið að ég fór alvarlega að hugsa minn gang. Skömmu síðar las mjög áhugaverða grein um offituaðgerðir í Mogganum og þá var eiginlega ekki aftur snúið. Ég pantaði tíma hjá Aðalsteini hjá Klínikin og bókaði tíma í aðgerð 22.ágúst. Ég viðurkenni alveg að ég er kvíðin en samt meira spennt. Ég er búin að vera lesa mikið um þetta og leita ráða hjá góðum vinum. Besta aðferðin er að undirbúa sig sem best og láta ekkert koma sér á óvart. Hér inni ætla ég að skrifa allt sem hendir mig í þessu ferðalagi. Ég vil endilega fá komment, góð ráð, pepp og jákvæða strauma. Ég frábið mér öll leiðinleg komment og neikvæðni. Lífið er of stutt til að vera með neikvæðni, gleði og hamingja lagar allt.  Á morgun segi ég ykkur hvað ég er að bralla til að undirbúa mig fyrir aðgerðina. Góðar stundir þangað til