Að læra nýja hluti

Hef ekki verið mjög dugleg að blogga en það er nú bara sökum annríkis. Finnst voðalega gott að hafa mikið að gera og já ég finn alveg gífurlega mikinn mun á orku og getu núna eftir aðgerð. Þetta gengur allt mjög vel nema það kom oggulítið bakslag í síðustu viku. Á miðvikudag og fimmtudag, seinnipart dags, fékk ég svakalega verki í magann. Varð óhemju orkulaus og átti mjög erfitt. Þetta var í vinnunni og þufti ég að fara afsíðis að reyna að jafna mig. Ég fór heim á miðvikudaginn og lagðist í rúmið og gat mig hvergi hrært. Svo þegar ég borðaði kvöldmat, alveg 5 gafla, þá hresstist ég við. Þannig að þegar ég fékk aftur svona vanlíðan í vinnunni á fimmtudeginum þá ákvað ég að fá mér banana og viti menn ég varð alveg stálslegin. Niðurstaðan var sú að ég er ekki að borða nógu mikið. Ég þarf að borða 6 sinnum á dag og það hefur ekki gengið alveg nógu vel. Þjáist án efa af næringarskorti því oft hef ég ekki verið að borða nema 2 sinnum yfir daginn og mjög mjög lítið í einu.

Ég þarf að gera gott skipulag og fylgja því í þaula. Þarf að fá mér morgunmat, millimál, hádegismat,millimál,kaffi,kvöldmat. Drekka 2 lítra af vökva yfir daginn og þá eru mér allir vegir færir. Það sem var að rugla mig þessa daga þegar mér leið svona var að ég fékk ekki eiginlegan hungurverk heldur bara illt í magann og flökurleika. Núna veit ég að magaverkur er hungurverkur 😀 svolítið flókið.

Verð alveg að viðurkenna að stundum sakna ég þess að geta ekki bara borðað það sem mig langar að borða og drekka með mat, sem mér finnst óhemju erfitt, ennnn það kemur allt með tíð og tíma. Við hjónakornin erum að fara til Madeira í nóvember og þá koma nýjar áskoranir varðandi mat og drykk. En auðvita tækla ég það 😉

Talan á vigtinni er sérstaklega ánægjuleg og nú fer að koma að því að fara kaupa sér einhverjar flíkur. Set hérna neðst tölurnar mínar…þangað til næst

Knús í hús og takk fyrir að lesa

Íris sem breytist brátt í beinagrind 😉

Vigtin:

20.júní 2017 139,7

22.ágúst 2017 132,9

18.sept 2017 120,8

Maukið og allt það

Um helgina fórum við Ómar með Sollu og Adam í árlega Veiðivatnaferð. Ekkert er eins afstressandi og að fara á einn af fallegustu stöðum Íslands með vinum og ættingjum. Það verður nú samt að viðurkennast að ég var ansi hreint stressuð að fara og sveiflaðist endalaust hvort ég ætti að hætta við eða bara drífa mig. Ástæðan jú, maukið…sem mér fannst vera óhemju flókin aðgerð. Frá því á þriðjudag hef ég maukað eitthvað grænmetisjukk sem leit út eins og hor og síðan maukaði ég kjötsúpu sem leit út eins og æla. Ég er ekkert að ýka! En svo ákvað ég að drífa mig og ég ákvað líka að hætta að mauka og byrja að tyggja

Amma mín, hún amma Kristín, sagði alltaf að maður á að tyggja 100 sinnum. Það er nú kannski einum of ennnn maður á samt að tyggja matinn sinn í mauk. Og það gerði ég, ég fékk mér ristabrauð með kæfu, sviðasultu og kjötsúpuafgang ómaukaðan. En svo var ég líka með barnamatskrukku sem var óhemju góð 🙂 síðan á heimleiðinni var okkur boðið í afmæli í Nefsholti og þar gat ég fengið mér ristað brauð með skinkusalati og boy oh boy hvað það var gott. Mig náttúrulega dauðlangaði í allar glæsilegu kökurnar en ég lét það vera. Þannig að vendipunkturinn er núna. Ég ætla að borða nánast allt og tyggja í drasl.

Mér líður alveg stórkostlega vel, full af orku og gengur bara alveg frábærlega. Ég er búin að missa 9 kg á tæpum 3 vikum svo það styttist í 10 kg. Vá hvað ég finn mikinn mun. Ég er ennþá að berjast við að fara ekki á vigtina á hverjum degi, lífið er jú stöðugar baráttur, en núna ætla ég að vera staðföst og fara ekki fyrr en á þriðjudaginn þegar 3 vikur frá aðgerð. Á morgun verður svo Veiðivatna silungurinn tyggður í drasl 🙂

Knús í hús elskurnar

P.s læt nokkrar góðar myndir fylgja með 🙂

Fyrsti í mauki…

Jebb það er komið að þeim áfanga, fyrsti í maukfæði byrjar í dag. Fyrsta almennilega máltíðin átti sér stað í kvöld og fyrir valinu varð plokkari. Talaði við lækninn minn góða og hann sagði það mjög mikilvægt að mauka allt með tölu núna í viku allavega. Síðan má ég fara að stappa og tyggja 100 sinnum og loks borða venjulegan mat. Plokkfiskurinn bragðaðist afskaplega vel og mér fannst gott að fá smá fyrirferð í munninn 🙂 Reyndar fannst mér mjög erfitt að horfa á þrumarann sem ég má ekki ennþá fá ennnnnnn þetta líður allt mjög fljótt. Í dag voru líka heftin tekin úr kviðnum þannig að það er bókstaflega allt að gerast. Mjög gott að vera laus við þau.

Í gær setti ég inn færslu um þetta blogg á góða systir. Gerði ég það til að geta kannski hjálpað einhverjum sem er í þessum hugleiðingum og vill fá að vita hvernig þetta allt er. Viðbrögðin hafa verið mjög góð og margar sett sig í samband við mig til að spyrja spurninga sem er aðallega um kostnaðinn. Fannst ég þurfa að láta koma fram að ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera þetta á eigin kostnað er eingöngu vegna þess að ég hef ekki tök á að fara í gegnum Reykjalund. Bæði finnst mér of löng bið og lika gæti ég ekki tekið þátt í því sem maður á að taka þátt í sökum vinnu. Reykjalundur er frábær stofnun og hefur gert marga góða hluti og ég hvet þá sem hafa tök á því að fara í gegnum Reykjalund.

Á hinn bóginn finnst mér það orka tvímælis að aðgerðin hjá Klíníkin og í Domus skuli ekki vera niðurgreidd og finnst að fólk eigi að hafa val, hvort það vilji fræðast um alla hluti varðandi hjáveituna sjálfir, eða læri þetta á námskeiði hjá Reykjalundi. Munurinn er eins og fjarnám eða staðnám 🙂 þetta er dýrt en þegar maður hugsar um ávinninginn þá skipta peningarnir ekki máli 🙂

Eftir að ég setti færsluna á góða systir þá höfðu svo margar samband að mér leið eins og frægum snappara… spurning að maður skelli í leik þar sem verðlaunin eru maukfæði að eigin vali, eldað af mér 😂😂 það myndi aldeilis verða vinsæll leikur. Á morgun kemur nýr dagur með nýjum áskorunum og þessari eilífu spurningu…hvað á að vera í matinn??

Þar til næst…knús og kossar til ykkar allra ❤️

Dumping syndrom

Ákvað að byrja þetta blogg á þessu skemmtilega orði dumping syndrome……hvað er það spyrja eflaust flestir? Það er fræðilegt orð yfir ástand sem á sér stað hjá 70% af fólki sem hefur farið í offituaðgerð. Eruð þið orðin spennt?? Ég verð að vanda mig vel svo ég lýsi þessu ekki mjög sjónrænt. Vona að allir séu búnir að borða kvöldmat 😜

Ég upplifði dumping í fyrsta skipti á miðvikudagskvöld. Ég kom heim og útbjó mér dásamlegt boozt með möndlumjólk, hnetusmjöri og kakói. Það er víst líka gott að setja prótein ( ekki með appelsínubragði) klaka og kókosolíu útí en ég átti ekki svoleiðis. Þetta var alveg hrikalega gott og ég kláraði allan litla skammtinn minn. 30 mín síðar upplifði ég verstu verki sem ég hef fengið síðan eftir aðgerð 🙂 ég sat ss á wc-inu með ógleði, þvílika kviðverki, hjartslátt og já steinsmugu ( já það er orð 😂). Þvílíkt og annað eins hef ég ekki upplifað. Ég var alveg úrvinda á eftir og barasta veik.

Þetta hefur líklega gerst út af hnetusmjörinu í booztinu sem er alltof feitt og já líka það að ég var ekki búin að borða nóg yfir daginn. Aðferðin til að losna við að lenda í þessu er að aðlaga matarræðið með mörgum litlum máltíðum og forðast kolvetni og fitu. Einnig er alveg gullin regla að drekka ekki neitt 30 mín fyrir mat og ekki fyrr en 30 mín eftir mat. Það er eitthvað sem ég þarf að venja mig sérstaklega mikið við. Drekkum alltaf með mat.

Fyrir utan það þá gengur lífið sinn vanagang. Ég mætti í vinnu á miðvikudaginn þar sem mér var fagnað eins og þjóðhetju og já allir sáu mun 💪☺️ fyrsti dagurinn var frekar erfiður og ég var svolítið mikið orkulaus en svo fór þetta stig batnandi. Í gær kom elsku Silja með orkugel sem maraþonhlauparar nota óspart í langhlaupum. Það er skemmst frá því að segja að ég nánast fór sömu vegalengd og maraþon eftir þetta því orkan var svo mikil. Fór með Adam í klippingu, fór í heimsókn til mömmu og Hermanns, kom heim og þreif allt hátt og lágt. Þetta gerði ég þrátt fyrir svefnlitla nótt, nóttina áður, sökum dumping verkja. Svo mjög líklega hefur þetta orkuskot virkað 🙂

Silja er ekki ónýt að halda mér við efnið þegar kemur að vökvadrykkju og er hér með tekin við af Ómari í klappstýruhlutverkinu 🙂 gott er að eiga góða að og það á ég svo sannarlega 🙂

En mikið vona ég að ég nái að aðlaga matarræðið í rétta átt og þurfa aldrei að upplifa svona verki aftur.

Góða helgi elskurnar ❤️

Orðuverðlaun

Það er óhætt að segja að ég eigi skilið orðu fyrir það sem ég gerði í gær. Ekki margir vita það en við erum að hýsa ungan mann frá Slóvakíu sem er skiptinemandi í HR. Hann verður hjá okkur til 1.sept og í gær átti hann afmæli. Uppáhalds maturinn hans er humar þannig að ég tók mig til og eldaði dýrindis humarveislu fyrir hann, bauð Krissu systir í mat og þetta var óhemju vel heppnað. Þeir sem þekkja mig vel vita að humar er uppáhalds svo þegar allir tóku til matar síns átti ég mjög erfitt með mig. En huggun harmi gegn þá bjó ég til dásamlega humarsúpu úr skeljunum og vá hvað það var æðislegt. Nógur afgangur þannig að ég fæ aftur humarsúpu í kvöld 😀

Annars var dagurinn í dag sá besti hingað til, er að drekka vel og í fyrst skipti frá aðgerð finn ég svengdar tilfinningu. Það er mjög jákvætt og gott merki. Á morgun ætla ég að drífa mig í vinnunna og boy ó boy hvað ég hlakka til. Verður örugglega allt annað að komast í rútínu og líka að hitta mínu dásamlegu vinnufélaga. Ég fór líka að hitta hjúkrunfræðing hjá Heilsuborg sem var alveg frábært því hún gaf mér mörg góð ráð. Ég hlakka mikið til að byrja aftur í Heilsuborg en það er ekki ráðlagt fyrr en í fyrsta lagi 4 vikum eftir aðgerð. Ég treysti á að Ómar verði duglegur að drífa okkur út í göngutúra til að hressa okkur við.

Núna er liðin slétt vika frá aðgerð og þegar ég fór á vigtina þriðjudaginn 22.ágúst þá var talan 132,9 kg..í dag 29.ágúst er talan á vigtinni 127,2 kg sem er algjörlega frábært. Það er óhætt að segja að fitupollarnir liggja útum allt eftir mig og fólk þarf að passa sig að detta ekki 😂 Ég gæti ekki verið ánægðari með þetta allt og sé fram á að komast í kjólinn fyrir jólin. Þangað til næst hafið það gott elskurnar

Knús og kossar

Issa byssa

Ár Issunnar

Ég fór að velta fyrir mér hvort ég ætti að hafa þetta eins og byrjun á nýju ári…Ár Issunnar. Ár Issunnar sem byrjaði 22.ágúst 2017 🙂 mjög líklega mun ég tala um fyrir og eftir aðgerð þegar fram líða stundir svo það er ágætt að hafa þetta eins og nýár. Annars ganga hlutirnir núna svona upp og niður. Ég má hafa mig alla við að ná upp vökvamagni og þarf að vera mjög einbeitt. Ég beisiklý lifi á Hleðslu núna, drekk tvær á dag og virðist það vera það eina sem mér líður vel af. Ég ákvað í kvöld að setja allt það sem ég borða jafnóðum inní my fitness pal appið svo ég geti alveg fylgst með þessu. Ég er búin að þjást af talsverðri ógleði í dag en finnst núna þetta horfa til betri vegar. Ég var búin að gera matseðill fyrir komandi vikur en það hefur alveg farið í vaskinn að fylgja matseðlinum. En í kvöld eldaði ég stafasúpu og borðaði alveg hálfan desilítra af henni (án stafa reyndar) þannig að nú er bara að spýta í lófanna og gera skipulag. Mér finnst svolítið öfugsnúið að þegar ég átti að vera að passa mig að borða ekki of mikið þá átti ég mjög erfitt með að hemja mig og svo núna þegar ég Á að borða þá á ég erfitt með það..hahah frekar snúið. En mestu skiptir að vera með skipulag.

Andlega hliðin er líka eitthvað aðeins að angra mig og ég er ósköp meir og stutt í tárin. Mér leiðist að líða illa og þegar maður er í ákveðnu basli þá er oft stutt í tárin. Ég er samt svo hrikalega heppin að eiga góða fólkið mitt að sem styður mig í einu og öllu. Hann Ómar minn er svo sannarlega búinn að standa sína plikt með mér og hvetur mig óspart áfram og knúsar mig þegar ég á erfitt. Mikið sem hann gerir mig hamingjusama þessi elska.

Annars horfi ég stöðugt í það að eftir ekki svo langan tíma þá verður þetta allt betra og kílóin fara að fjúka. Þau eru reyndar alveg á hraðri leið í burtu og eftir stuttan tíma verð ég farin að sjá mikinn mun. Næsta mál á dagskrá er að gera skipulag, borða og hreyfa mig þá verður þetta allt svo mikið betra.

Svo á miðvikudaginn ætla ég að fara í vinnuna aftur. Mikið sen ég hlakka til að sjá alla þar og komast í rútínu. Þá hef ég hana Silju mína að pína mig áfram í drykkjunni svo hún tekur bara við af Ómari… það verður fínt!!

Gleðilegt nýtt Issuár elskurnar 🙂

Aðgerðin búin

Stóri dagurinn…nýja lífið hófst á þriðjudaginn. Allt gekk vel og í dag fimmtudag líður mér bara vel. Ekki misskilja, þetta er ekki bara búið að vera dans á rósum, gærdagurinn var hræðilegur. Mér leið eins og það væri búið að blása mig upp því ég var stútfull af loftverkjum. Þeir eru ekki það besta í heimi, mér var svo illt í öxlunum að mig langaði að rífa af mér handlegginn og berja mig í axlirnar. Ég á að drekka 1.5 lítra af vökva á dag og í gær tókst það alls alls ekki. Aðalsteinn læknir talaði um að fá mig aftur inn í dag ef mér gengi svona illa að vökva mig en viti menn dagurinn í dag var bara allur annar. Ég er búin með 1 líter og dagurinn ekki ennþá búinn. Ég fór í léttan göngutúr í dag og þreif íbúðina þannig að það er allt að gerast. Ómar er alveg með svipuna á mér að nærast og ég gæti ekki haft betri einstakling við hliðina á mér en hann Ómar minn ❤️ Næstu dagar fara í að ná meira þreki og venjast nýjum lífstíl. Hlakka mikið til.

En að deginum sjálfum. Ég kom á Klíníkina kl 13.30 og þurfti að bíða smá stund. Svo kom hjúkrunarfræðingur og  fylgdi mér upp á herbergi. Það var mjög fínt fyrir utan að sjónvarpið virkaði ekki. Ég klæddi mig í fötin flottu og skömmu síðar kom Aðalsteinn og fór með mig niður á skurðstofu. Áður en ég vissi af var ég komin upp á borð, búið að setja upp nál og búmm ég var sofnuð. Aðgerðin gekk mjög vel, aðeins klukkutíma, og svo var ég vakin. Mér gekk hálf illa að vakna en svo þegar ég var tilbúin labbaði ég upp á herbergi. Ómar kom skömmu síðar, mikið sem það var gott að sjá hans fallega andlit. Hjúkrunarfræðingarnir hjá Karítas hugsuðu afskaplega vel um mig og eru algerir englar í mannsmynd. Aðstaðan þarna á Klíníkin er alveg til fyrirmyndar og ég mæli alveg sterklega með þeim 🙂

Aðalsteinn er búinn að vera duglegur að hringja og athuga með mig, en mér sýnist á öllu að ég muni standa mig það vel í þessu að ég þurfi ekki vökvun 🙂 Læt heyra frá mér reglulega héðan í frá. Enda þennan pistill á tölum sem mér finnst mjög erfitt að opinbera but ó well

20. júní 2017 139,9 kg

22.ágúst 2017 132,9 kg

24.ágúst 2017 130,7 kg

knús og kossar til ykkar ❤️

Dagurinn fyrir aðgerð…

…..var frekar stressandi verður að viðurkennast. Hann var þó ósköp fljótur að líða því nóg að gera í vinnu og líka við undirbúning fyrir nýja lífið. Á milli viðskiptavina hjá RSK tók ég mig til og bjó til semí matseðill fyrir næstu 2 vikur. Hann var ósköp einhæfur því jú er bara á fljótandi fæði. Hleðsla, bollasúpa, smoothie, próteinsjeik, ávaxtasafi,vatn og allt í þeim dúr eru á matseðlinum. Þegar vinnudagurinn kláraðist og ég var búin að knúsa alla frábæru vinnufélagana mína, þá fórum við í Fitnessport að kaupa prótein því það er það eina sem gildir á næstu vikum 🙂 ég keypti risapoka með appelsínubragði á frábæru tilboði. Á leiðinni heim úr vinnunni spurði minn elskulegi eiginmaður hvað mig langaði í í síðustu kvöldmáltíðina ( eins og ég væri á leiðinni í aftöku 😂)…fyrir valinu varð dýrindis kjötsúpa sem var hrikalega góð. Í Bónus keypti ég fullt af allskonar sem ég á eflaust ekki eftir að hafa lyst á en það er samt betra að vera vel undirbúin.

Eftir mat tók svo við sá óheyrilega erfiði tími að sprauta mig með blóðþynningarlyfi í kviðinn sem ég þarf svo að gera næstu 9 kvöld. Viti menn ég bara dreif í þessu og það var ekkert mál 👌 svo stolt af sjálfri mér 💪. Núna er það svo bara að pakka niður og  svo að reyna að hvíla mig fyrir stóra daginn. Leggst á bæn að allt fari vel. Ég á að mæta kl 14 og fer svo í aðgerðina uppúr 16 ef allt gengur eftir áætlun.  Ómar ætlar að koma og vera hjá mér á sjúkrahótelinu og hugsar vel um frúnna sína eins og vanalega 🙂

Þakka kærlega fyrir allar góðar kveðjur. Vona að þið hugsið til mín á morgun og sendið allar ykkar sterkustu bænir að allt fari vel. Ég læt heyra frá mér þegar ég er komin á ról.

Knús í hús ❤️

IMG_0128.JPG

 

Og það styttist

Núna eru bara 4 dagar í stóra daginn (hljómar eins og ég sé að fara gifta mig 😂). Að öllu gamni slepptu þá sveiflast ég svakalega núna. Er svo kvíðin að það er að fara með mig. En svo heyrði ég í Aðalsteini lækni áðan og hann náði að róa mig niður, þetta mun verða frábært. Þegar ég tók ákvörðun um aðgerð þá sendi Aðalsteinn mér upplýsingabækling sem hefur að geyma bókstaflega ALLT sem ég þarf að vita um aðgerðina, kosti og galla, hvaða fylgikvillar gætu komið upp, aðgerðin sjálf og undirbúningur fyrir hana, hvað má búast við eftir aðgerð hvað varðar þyngdartap og allt milli himins og jarðar. Þetta er nokkurskonar hjáveitu biblía.

Sjálf er ég búin að viða að mér allskonar efni, ég keypti mér bók sem heitir  Þekktu þitt magamál  sem er svona svengdarvitundarbók. Ég fékk líka lánaða bók hjá yndislegu Írisi sem vinnur með mér sem heitir Næring og hollusta. Svo er ég búin að vera horfa á youtube myndbönd sem hafa hjálpað mér mjög mikið. Þannig að ég tel mig vera nokkuð vel undirbúna ☺️ Að auki er ég búin að fjárfesta í svona mini blandara þannig að ég ætti að vera vel sett fyrir vikurnar eftir aðgerð.

Ég fer ss inn á þriðjudaginn næsta 22.ágúst og á að mæta kl 14. Finnst það heldur seint í rassinn gripið, hefði viljað fara í aðgerð strax kl 8 en það eru víst nokkrir á undan mér. Ég mun liggja inni á (sjúkra)hótel Ísland í einn sólahring. Á bara strax að fara á stjá þegar ég er vöknuð og hreyfa mig. Fer svo heim daginn eftir og jafna mig í viku eða svo.

Úfff bara að setja þetta á blað stressar mig. Vonandi finn ég innri frið og ró og fer sátt inn í nýtt líf. Takk fyrir stuðninginn allir sem hafa hvatt mig áfram. Þið eruð æði

 

Ást og friður til ykkar elskurnar

 

 

 

Að geta gert grín að sjálfum sér

Ég hef alltaf getað gert grín að sjálfum mér og fitunni. Það hefur ekki verið neitt “issjú” að vera feitur. Fólki hefur oft brugðið smá t.d þegar ég segi: ” Ég get ekki farið í vatnsrennibraut því fallhraðinn er svo mikill að ég myndi fleyta kellingar yfir alla lendingalaugina og fara útúr garðinum eins og í Norbit.” Það kannski hlær vandræðalega en fattar svo úr hverju ég er gerð þ.e. Kaldhæðni. Sannleikurinn er samt sá að ég get ekki farið í vatnsrennibraut því þetta gæti gerst nákvæmlega svona. Ég get heldur ekki legið í hengirúmi því þá myndi ég annað hvort draga rassinn eftir jörðinni, voða kósý eða fella tréin sem hengirúmið er bundið í.. ( ég veit að þið sjáið þetta fyrir ykkur og hlæið ) 😀

En að alvörunni, núna er bara rúm vika í aðgerð og allt í einu í dag sagði ég við Ómar… ” á ég ekki bara að hætta við?” Ég viðurkenni að ég er núna drullustressuð og langar ekki að fara. En þegar ég hugsa um, hengirúmið, vatnsrennibrautina, 66N úlpuna, fjöllin sem ég ætla að klífa, rólurnar sem ég ætla að róla mér í og ekki meira bakflæði og aðrir kvillar, þá er ekki séns að ég hætti við. Eiga eftir að koma mörg svona augnablik á næstunni en þá hef ég hann Ómar minn til að stappa í mig stálinu.

Ég fór í apótek um daginn að ná í lyf fyrir og eftir aðgerð og boy ó boy það fer um mig.. ég þarf að sprauta mig í kviðinn daginn fyrir aðgerð og svo 10 daga eftir aðgerð. Svo fékk ég mjög sterk verkjalyf og hægðalosandi lyf (já ég veit, sexý). Búin að kaupa mér stuðningssokka til að ég fái ekki blóðtappa og þá er það eina eftir að fara í blóðprufu. Úff þetta er að gerast og ég er að deyja úr streitu. En með peppi frá ykkur öllum sem nennið að lesa þetta þá tekst mér allt. Takk fyrir mig og héðan í frá verð ég duglegri að blogga.

Ást og friður frá Miss Norbit